Upplýsingar

Frá árinu 2007 hafa þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka getað hlaupið til styrktar góðu málefni. Tugir miljóna hafa safnast til á annað hundrað góðgerðafélaga í tengslum við hlaupið ár hvert. Upphæðirnar smáar sem stórar hafa skipt félögin miklu máli og verið notaðar í mörg þörf verkefni. Árið 2016 söfnuðust 97.297.117 krónur til 164 góðgerðafélaga.

Allar nánari upplýsingar um Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka má finna á heimasíðu hlaupsins www.marathon.is/reykjavikurmaraton. Þar fer einnig fram skráning í hlaupið. Til að hlauparar geti safnað áheitum á hlaupastyrkur.is þurfa þeir fyrst að skrá sig í hlaupið á marathon.is.


Áheitasöfnunin er opin fyrir góðgerðafélög sem hafa verið formlega stofnuð á Íslandi og eru með starfandi stjórn og kennitölu. Ekki er hægt að skrá félög sem nota kennitölur eða bankareikninga einstaklinga. Aðeins er hægt að skrá félög sem hafa eitthvert af eftirfarandi rekstrarformum: félagasamtök, áhugamannafélag eða sjálfseignarstofnun sem ekki stundar atvinnurekstur.


Ábyrgðaraðilar nýrra félaga sem vilja taka þátt skulu senda upplýsingar um kennitölu og bankareikning félags á netfangið aheit@marathon.is. Skráningu nýrra félaga lýkur föstudaginn 4. ágúst 2017.


Um 5-10% af söfnuðu fé í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka fer í kostnað við rekstur vefsins hlaupastyrkur.is, greiðslu færslugjalda o.fl. Þess ber þó að geta að bæði korta- og símafyrirtæki slá verulega af sínum gjöldum til að sem mest af söfnuðu fé geti runnið til góðgerðamála. Árið 2016 var kostnaður 5,08% en hann getur verið breytilegur milli ára.


Fyrirspurnir vegna áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons skulu sendar á tölvupóstfangið aheit@marathon.is.