Hlauparar

Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir
Hleypur fyrir Ljósið - Endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda
Samtals Safnað
Markmið
Ákjósanleg greiðsluleið

Ég ætla að hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágúst næstkomandi til styrktar Ljósinu. Ég hef áður hlaupið fyrir Ljósið og styrkt sjálf með framlagi um nokkurra ára skeið. Í ár er mér starfsemin sérstaklega hugleikin, þar sem Hildur systir mín greindist nýlega með brjóstakrabbamein, 42 ára gömul. Meinið uppgötvaðist i hefðbundinni brjóstaskimun.
Systir mín hefur tekist á við þessi óvæntu veikindi af miklu hugrekki, styrk og jákvæðni. Hún hefur mest verið að leita í Ljósið til að byggja sig upp andlega og líkamlega, en eins og hún segir sjálf þá á hún ekki nægilega sterk orð til að lýsa því góða og flotta starfi sem þar er unnið.
Í Ljósinu hefur hún fengið ómetanlega góðar móttökur frá starfsfólki, fengið jafningjastuðning, ýmsa fræðslu, nýtt sér íþróttasalinn og sótt í annað frábært starf sem Ljósið hefur upp á að bjóða. Jafnframt fengum við nánasta fjölskyldan mjög góðan viðtalstíma og fræðslu í Ljósinu í upphafi greiningar, auk þess sem önnur fræðsla stendur reglulega til boða fyrir aðstandendur. Ég á einnig mjög góða vinkonu sem greindist í lok síðasta árs og er í sömu sporum og systir mín - ég hleyp hálft maraþon fyrir hetjurnar mínar og gott málefni. Ég hvet fjölskyldu, vini mína og vandamenn að heita á mig með því að styrkja starfsemi Ljóssins.
Með fyrirfram þökk og kærleikskveðju,
Ingibjörg Ásta
Ljósið - Endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda
Ljósið er sjálfstætt starfandi endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda. Hjá okkur starfar þverfaglegur hópur fagaðila að andlegri, líkamlegri og félagslegri endurhæfingu þeirra sem greinast með krabbamein allt frá 16 ára aldri. Einnig veitum við þeim sem greinast og aðstandendum allt niður í 6 ára aldur fræðslu og stuðning.
Nýir styrkir