SPES International rekur tvö heimili fyrir munaðarlaus börn í Tógó í Afríku með 179 börnum, eitt í höfuðborginni Lomé og annað í borginni Kpalimé norðvestur af Lomé. Tekið er á móti munaðarlausum ungum börnum og koma þau oft veikburða og vannærð til SPES þar sem hlúð er að þeim. Börnin dvelja á heimili SPES við góðan aðbúnað til 18 ára aldurs þar sem þeim er séð fyrir öruggu húsnæði, fæði almennri skólagöngu og heilbrigðisþjónustu svo sem læknis- og sálfræðiþjónustu. Við 18 ára aldur er þeim hjálpað út í lífið með því að styðja þau til áframhaldandi náms eða koma þeim í almenna vinnu í Tógó.
Öll börnin eiga sér styrktarforeldra sem greiða mánaðarlegt framlag sem dugar til að framfleyta barninu og leggja með því grunn að framtíð þess. Íslenskir styrktarforeldrar styðja í dag 60 börn og er stöðug þörf á nýjum styrktarforeldrum.
Þess ber að geta að allur almennur rekstrarkostnaður varðandi stjórnun og umsýslu SPES International og Íslandsdeildar SPES er unninn í sjálfboðaliðsvinnu og fer því allt fé sem safnast óskert til SPES í Tógó til reksturs barnaheimilanna.
Sjá nánar á heimasíðunni www.spes.is