
Samhjálp hefur starfað að góðgerðar- og hjálparstarfi í rúma fjóra áratugi og staðið vaktina fyrir þá aðila sem minna mega sín og hafa átt við áfengis- og vímuefnavanda að stríða.Starf Samhjálpar byrjaði smátt í sniðum í bílskúr á Sogaveginum. Í dag, 46 árum síðar, hefur starf Samhjálpar margfaldast.
Áfengis- og vímuefnameðferð er rekin í Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal, þar sem skjólstæðingar dvelja í að minnsta kosti þrjá mánuði.
Einnig rekur Samhjálp fjögur áfanga- og stuðningsheimili. Heimilin eru ætluð þeim sem lokið hafa langtíma áfengis- og vímuefnameðferð. Þau eru staðsett í Reykjavík og Kópavogi og eru rekin í samstarfi við velferðarsvið Reykjavíkurborgar og velferðarsvið Kópavogsbæjar.
Á Kaffistofu Samhjálpar eru um 67.000 máltíðir gefnar á ári og er hún opin alla 365 daga ársins, líka á stórhátíðum eins og um jól og páska. Þrátt fyrir vaxandi velmegun í þjóðfélaginu hefur aðsókn á Kaffistofuna ekki dregist saman. Við finnum fyrir aukinni þörf eftir aðstoð sem við sinnum eins og efni og aðstæður leyfa.
Hægt er að kynna sér betur starf okkar á heimasíðunni www.samhjalp.is og einnig má fylgja okkur á www.facebook.com/samhjalp.is
Við færum öllum hlaupurum sem leggja samtökunum lið innilegar þakkir fyrir veittan stuðning og velvild í garð félagsins og óskum öllum hlaupurum góðs gengis.
Takk fyrir að hlaupa fyrir Samhjálp.
Starfsfólk Samhjálpar
