Á Íslandi skortir verulega þekkingu og skilning á átröskunum en eitt helsta markmið samtakanna SÁTT er að auka skilning og þekkingu stjórnvalda, heilbrigðisstétta og almennings á átröskunum. 

Átröskun er alvarlegur geðsjúkdómur og einkennist af miklum truflunum á matarvenjum sem hafa alvarlegar líkamlegar og andlegar afleiðingar fyrir sjúklinga og skerða lífsgæði þeirra verulega. Í verstu tilfellum getur átröskun leitt til dauða. Það er mikill misskilningur að átröskun snúist einungis um mat og útlit og að einungis ungar konur veikist. Fólk á öllum aldri, af öllum kynjum og uppruna getur glímt við átröskun og þurft að leita sér aðstoðar. Tíðni átraskana virðist vera að aukast í hinum vestræna heimi og engin ástæða er til að ætla að því sé öðruvísi farið á Íslandi þó ítarlegar rannsóknir skorti.

Annað markmið samtakanna er að stuðla að því að einstaklingar með átröskun hér á landi fái þá heilbrigðisþjónustu, meðferð og félagslega aðstoð sem nauðsynleg er. Til þess þarf að huga að þeim meðferðarúrræðum sem eru í boði nú þegar og auka þar sem upp á vantar. Snemmtæk íhlutun og rétt meðferð geta dregið úr hættu á dauða og langvarandi afleiðingum af sjúkdómnum. 

Markmiðum sínum hyggjast samtökin ná með því að skipuleggja viðburði, vekja athygli á málaflokknum í fjölmiðlum, eiga samskipti við opinbera aðila sem og einkaaðila og stuðla að forvarnarstarfi. 

Um þessar mundir eru samtökin að skipuleggja ráðstefnu í október 2020.